Fyrir skömmu kom út á vegum IOGT á Íslandi ritið ,,8 mýtur um kannabis“. Í því fjallar sænski rithöfundurinn og vísindablaðamaðurinn Pelle Olsson um átta algengustu ranghugmyndirnar um kannabis og svarar þeim. Peter Allebeck, prófessor í lýðheilsuvísindum við Karolinska Institutet í Stokkhólmi, er faglegur ráðgjafi útgáfunnar.

Í inngangi segir Pelle meðal annars að það að halda því fram að lögleiða eigi kannabis sé að halda því fram að fleiri eigi að eiga verra líf. Þessi skortur á samstöðu eigi ekki aðeins við um einstaklinga. Umræðan um kannabis snúist einnig um alþjóðlega samstöðu. Hann segir einnig að rökin fyrir því að leyfa vímuefnið, þar sem það hefi verið gert, hafi verið eintómar mýtur. Því miður sé ennþá vanþekking á skaðlegum áhrifum kannabiss, þrátt fyrir sífellt áreiðanlegri vísindalegar rannsóknir. Umræðan um kannabis innihaldi oft ranghugmyndir og sé stundum beinlínis ónákvæm. Þess vegna hafi hann skrifað þennan bækling sem nú kemur út í uppfærðri þriðju útgáfu.

Í eftirmála ritsins segir útgefandinn hér á landi, IOGT á Íslandi:

Það er IOGT heiður að fá tækifæri til að koma að útgáfu þessarar bókar með styrk úr lýðheilsusjóði og félagasjóði IOGT á Íslandi. IOGT á Íslandi hefur verið virkt í forvarnaumræðunni frá stofnun 1884 og beitir sér fyrir að fá umræðuna upp á borðið. Í dag er búið er að afvegaleiða umræðuna um vímuefnamál og er hún á miklum villigötum. Þingmenn fara margir offari í að koma sínum hugmyndum í gegn. Það er mjög alvarlegt þegar alþingismenn beita sér fyrir lagabreytingum sem slaka á lögum sem voru sett til að hindra aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum. Við vitum að það er óheillaskref að opna fyrir aukið aðgengi þeirra sem ýta undir neyslu. Við höfum því miður séð allt of mörg dæmi um aukna neyslu eftir tilslakanir á lögunum. Það er áríðandi að forvarnir séu settar í forgang og skýr stefna sé sett um þau mál sem snúa að áfengi og öðrum vímuefnum. Við köllum eftir heildarstefnu í þessum málaflokki á hverjum tíma og lýsum okkur reiðubúin að taka þátt í vinnu við stefnumótun. Eðlilegt er að lýðheilsumat verði framkvæmt áður en breytingar eru gerðar á löggjöf eða sölufyrirkomulagi og að aðilar sem vinna í forvörnum séu með í umræðunni.

Slóð á ritið ,,8 mýtur umkannabis“ er: https://iogt.is/wp-content/uploads/2021/05/8-m%C3%BDtur-um-kannabis-ISLENSKA-vefutgafa.pdf