Kannabis á Íslandi

Lög um kannabis á Íslandi

Upphafa lagasetningar um ávana- og fíkniefnamál á Íslandi má rekja til ópíumlaganna frá 1923 sem voru tilkomin vegna alþjóðlegrar samþykktar. Þessi lög bönnuðu innflutning, útflutning og framleiðslu á óunnu ópíumi. Lítið reyndi á þessi lög. Í lok 7. áratugarins fór að bera á neyslu kannabis og annarra efna í tengslum við breytta lífshætti ungs fólks og samfara því komu fram kröfur um hert eftirlit og viðurlög við fíkniefnabrotum. Endurbætur voru þá gerðar á ópiumlögunum, refsingar voru hertar og refsivert athæfi skilgreint ítarlega. Með reglugerð frá 1969 sem sett var samkvæmt heimild í lögum nr. 43/1968 var notkun á kannabis og LSD bönnuð á íslensku forráðasvæði. Á sama ári lagði löggæslan í fyrsta skipti hald á ólögleg fíkniefni. Vegna vandkvæða við rannsókn ávana- og fíkniefnamála þótti nauðsynlegt að skipa sérdómstól og voru lög þar að lútandi sett 1973. Hann hóf starfsemi sína sama ár en nokkru áður, árið 1971, var kominn vísir að lögregludeild sem rannsakaði eingöngu fíkniefnabrot. Árið 1974 var samþykkt samræmd löggjöf í ávana- og fíkniefnamálum (65/1974) og almennum hegningarlögum breytt á þá lund að stórfelld brot vörðuðu allt að tíu ára refsivist.

Neysla og útbreiðsla

Þrátt fyrir að kannabis sé algengasta vímuefnið sem notað er á Íslandi að áfengi frátöldu er neysla þess ekki almenn.

Í nóvember og desember 2012 fól Embætti landlæknis fyrirtækinu Maskínu að gera könnun á neyslu kannabisefna og annarra ólöglegra vímuefna á Íslandi og á viðhorfi Íslendinga til þess að neysla kannabisefna yrði gerð lögleg. Í úrtakinu voru alls 1751 einstaklingar á aldrinum 18–67 ára af öllu landinu. Alls svöruðu 996 spurningalistanum og var svarhlutfall því 58,3%. Samskonar kannanir voru framkvæmdar af Gallup fyrir Áfengis- og vímuvarnaráð árin 2001 og 2003.

Þar kemur fram að 63% Íslendinga á aldrinum 18–67 ára hafa aldrei prófað nein ólögleg vímuefni. Af þeim sem hafa prófað ólögleg vímuefni hafa flestir prófað kannabis og langflestir fyrir meira en 12 mánuðum eða prófað 1–2 sinnum á síðustu 12 mánuðum.

Um 13% svarenda sögðust hafa prófað önnur ólögleg vímuefni en kannabis. Tæplega 11% höfðu prófað amfetamín en næstflestir kókaín, eða 9%. Karlar höfðu prófað önnur vímuefni en kannabis í aðeins meira mæli en konur og yngri svarendur frekar en þeir sem eldri eru. Einnig kom fram að því yngra sem fólk var þegar það prófaði kannabisefni fyrst því meiri líkur voru á að það hefði prófað önnur vímuefni.

Í könnuninni frá 2012 segjast um 36% svarenda hafa prófað kannabisefni einhvern tíma á ævinni og hefur það hlutfall hækkað um 11 prósentustig síðan 2003. Karlar, yngra fólk, þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem meta líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega eru líklegri en aðrir til þess að hafa prófað kannabis.

Þá hafa þeir einnig frekar prófað kannabis sem hafa prófað önnur vímuefni eða neytt lyfja vegna kvíða, ótta eða þunglyndis síðustu 12 mánuði áður en könnunin var lögð fyrir. Langstærstur hluti þeirra sem hafa prófað kannabisefni (tæplega 82%) notuðu þau ekki á síðustu 12 mánuðum áður en könnunin var gerð. Um 11–12% þeirra sem hafa prófað kannabis notuðu efnið 1–2 sinnum á síðustu 12 mánuðum og 3–4% 20 sinnum eða oftar.

Algengast er að fólk prófi kannabisefni fyrst á aldrinum 18–19 ára en samkvæmt könnuninni frá 2012 prófaði um 61% svarenda kannabisefni fyrir 20 ára aldur, þar af um 13% á grunnskólaaldri (15 ára og yngri).

Samkvæmt mælingum 1997-2013 virðist neysla fíkniefna bundin við afmarkaða hópa, vera tilraunakennd og tímabundin hjá þorra neytenda. Neysla kannabisefna síðustu sex mánuði fyrir mælingu gefur vísbendingar um virka neyslu en hópurinn virðist ekki hafa stækkað mikið á síðustu árum. Ætla má að virkir neytendur kannabis á Íslandi séu um 10 þúsund.

Rannsóknir sýna að ætla má að 25-35% Íslendinga hafi prófað kannabis, mestmegnis ungt fólk. Ástæður þess eru einkum forvitni og e.t.v. hluti af alþjóðlegum straumum. Flestir hætta neyslunni þegar aldur og ábyrgð færist yfir. Hluti þeirra sem hefja neyslu heldur henni áfram, eins og á við um önnur ávana- og vímuefni. Festast í misnotkun og ýmsum heilsufars- og félagsvanda. Rannsóknir sýna að stór hluti þeirra sem verst lenda úti vegna ávana- og vímuefnanotkunar á við alvarleg persónuleg og félagsleg vandamál að stríða sem ýtir undir neyslu þeirra; er rótin að vanda þeirra en neyslan eykur vandann um leið.

Kannabis og unga fólkið

Í samantektarskýrslu Rannsókna og greininga ,,Vímuefnanotkun unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi: Þróun frá 1997 til 2013“ kemur fram að neysla á kannabisi hjá þessum aldurshópi er hverfandi.

Mælingar R&G á neyslu kannabisefna voru framan af bundnar við spurningar um notkun á hassi en tekið var að mæla notkun marijúana einnig árið 2009. Frá því hefur verið spurt um hvoru tveggja. Þróunin í neyslunni, sé horft á tíðni yfir neyslu á hassi einu sinni eða oftar um ævina, er sú að hún hefur lækkað úr 13% í 10. bekk árið 1997 (og reyndar 17% árið 1998) í 3% árið 2013. Tíðnin í 9. bekk var 2% árið 2013 og 1% í 8. bekk. Tíðni á neyslu marijúana einu sinni eða oftar um ævina breytist lítið á milli þeirra þriggja mælipunkta sem eru fyrir hendi, 2009, 2012 og 2013 og var um 7% í 10. bekk árið 2013, 3% í 9. bekk og um 2% í 8. bekk. Ef hins vegar tíðni yfir notkun hass eða marijúana er tekin saman árið 2013 þá má sjá, að hún er svo til sú sama og tíðni notkunar marijúana eingöngu. Þetta þýðir að neysla kannabisefna í þessum aldurshópum er nú að mestu leyti bundin við marijúana og að þeir sem á annað borð hafa notað hass hafa yfirleitt líka notað marijúana. Neytendur hass og marijúana eru því ekki aðgreindir hópar heldur einn og sami hópurinn.

Viðhorf til kannabis

Almenn sátt ríkir meðal Íslendinga á núverandi fyrirkomulagi í ávana- og vímuefnum. Það gildir einnig um kannabis. Samkvæmt ofangreindri könnun Embættis landlæknis frá árinu 2012 voru 78% svarenda andvígir því að neysla kannabis yrði gerð lögleg hér á landi, heldur færri en árið 2003 þegar 87% svarenda voru því andvígir. Munur er á viðhorfi eftir hópum. Karlar eru hlynntari því að neysla kannabis sé gerð lögleg heldur en konur, þeir sem eru yngri, íbúar höfuðborgarsvæðisins og þeir sem telja sig vera við sæmilega eða lélega andlega og líkamlega heilsu eru hlynntari lögleiðingu en samanburðarhópar. Þá eru þeir sem hafa prófað kannabisefni og önnur ólögleg vímuefni hlynntari lögleiðingunni og þeir sem hafa notað lyfseðilsskyld lyf á annan hátt en samkvæmt læknisráði eru einnig hlynntari henni en þeir sem aldrei hafa prófað slík lyf. Niðurstöður könnunar frá árinu 2012 sýna enn fremur að um 5% svarenda telja líklegt að þeir myndu prófa kannabis ef neysla þess væri lögleg en tæplega 91% telur það ólíklegt. Af þeim sem telja það ólíklegt segja langflestir það vera mjög ólíklegt. Karlar eru líklegri en konur til þess að vilja prófa, þeir yngri eru líklegri en þeir eldri og íbúar höfuðborgarsvæðisins líklegri en þeir sem búa utan þess.

Löggjöf um ávana- og vímuefni á Íslandi byggir á alþjólegum samþykktum um eftirlit með þessum efnum. Henni er fyrst og fremst ætlað að vernda almannahagsmuni, líf manna og heilsu. Þjóðfélagsleg hættusjónarmið eru sett á oddinn. Ástæðurnar fyrir banni við kannabisefnum eru þær sömu og ástæður fyrir banni við öðrum fíkniefnum. Löggjafinn vill leitast við að koma í veg fyrir skaðleg áhrif efnisins bæði á einstaklinga og þjóðfélagið sem heild.

Heimildir:

Ómar H Kristmundsson (1985). Ólögleg ávana- og fíkniefni á Íslandi. Reykjavík. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Ólögleg vímuefni – viðhorf og neysla Íslendinga 18-67 ára. (2013). Embætti landlæknis. Sótt á netið 25. mars 2015.

Hrefna Pálsdóttir Jón Sigfússon Inga Dóra Sigfúsdóttir Álfgeir Logi Kristjánsson (2013). Vímuefnanotkun unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi: Þróun frá 1997 til 2013. Rannsóknir og greining Háskólanum í Reykjavík. Sótt á netið 25. mars 2015.

Helgi Gunnlaugsson (2014). Fíkniefnavandinn: Viðbrögð á Íslandi og kostir í stefnumótun. Gögn vegna erindis á málþingi Félagsfræðingafélags Íslands 8. apríl 2014. Sótt á netið 25. mars 2015.

Halldór Gunnar Haraldsson. Vísindavefurinn. Hvenær og af hverju var kannabis bannað á Íslandi? Eða eru engin lög sem banna það? Sótt á netið 25. mars 2015.