Í grein sem birt var í sænska læknaritinu Läkartidningen í janúar 2021 er fjallað um hugsanleg áhrif þess að lögleyfa kannabis í Svíþjóð, að takmörkuðu leyti eða alfarið. Í greininni er vísað til og byggt á samantekt frá World Psychiatry sem birt var í júní 2020 og fjallar um áhrif lögleyfingar á kannabisi í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna.

Höfundar greinarinnar í Läkartidningen segja meðal annars að ekkert Evrópuland hafi lögleyft almenna notkun á kannabisi, en nokkur lönd hafa stigið skref í þá átt með því að ,,afglæpavæða“ notkun þess, þó ekki Svíþjóð sem fylgir aðhaldsstefnu í innflutningi, sölu og dreifingu á kannabisefnum. Þrátt fyrir að notendur kannabisefna séu tiltölulega fáir í samanburði við önnur lönd, þá er sænska stefnan gagnrýnd og í auknum mæli kallað eftir breytingum. Greinarhöfundar velta fyrir sér ástæðum þess í ljósi þess að lögleyfingin í Bandaríkjunum, og Kanada hefur aukið aðgengi að kannabisi og leitt af sér ágengari markaðssetningu og ólöglegi markaðurinn virðist halda sínum hlut.

Með ,,afglæpavæðingu“ er yfirleitt átt við að varsla og notkun til eigin nota er leyfileg. Aðrar hliðar kannabisneyslu, framleiðslu, sölu og drefingu geta svo verið með ýmsum hætti. Í Hollandi er kannabisframleiðsla til dæmis ólögleg en sala fer fram á svokölluðum kaffihúsum. Eistland, Tékkland, Georgía, Króatía, Slóvenía, Ítalía, Portúgal, Holland, Lúxemborg, Spánn, Belgía og Sviss eru lönd sem hafa lögleyft eigin notkun en beita viðurlögum við ýmiss konar neysluhegðun, svo sem notkun á almannafæri. Í Portúgal er varsla á 25 grömmum af kannabis heimil, en sektað fyrir meira magn.

Helstu ábendingar greinarhöfunda:

  • Þrátt fyrir lágt hlutfall kannabisneytenda er stefna Svía varðandi kannabis dregin í efa.
  • Áhættan af kannabis er meðal annars vitsmunaleg skerðing, skólaforðun og þróun geðrofs.
  • Frá 2012 hafa ellefu ríki í Bandaríkjunum, Kanada, auk Úrúgvæ lögleyft kannabis.
  • Lögleyfingu er ætlað að grafa undan ólöglegum markaði og draga þar með úr aðgengi ungs fólks að kannabisi. Skipulögð glæpastarfsemi og ólöglegur markaður virðist þó lifa þrátt fyrir lögleyfingu.
  • Framboð á kannabisi hefur aukist með auknu úrvali og lægra verði.
  • THC innihaldið í kannabisi hefur aukist verulega á undanförnum árum og þar með aukið áhættuna af notkun þess.
  • Jákvæð áhrif afglæpavæðingar sem bent er á að hafi orðið í Portúgal gætu verið vegna mikils átaks í samræmdri umönnun og meðferð.