Kannabis

(hass, maríhúana, hassolía)
– Tetrahýdrókannabínól

Tetrahýdrókannabínól (skammstafað THC) finnst í kannabisplöntunni, Cannabis sativa. Hún óx upphaflega í Mið-Asíu og er stundum nefnd hampjurt þar sem vinna má hamp úr basttrefjum í stofni hennar. Kannabisplantan vex víða um heim og er nú einkum ræktuð í Austurlöndum nær, s.s. Líbanon, Mið-Austurlöndum, t.d. Íran, Pakistan, Afganistan og Nepal, í Marokkó í Norður-Afríku og Mexíkó og víðar í Ameríku.

Tetrahýdrókannabínól, hið vímugefandi efni í kannabis, er ekki plöntubasi líkt og morfín og nikótín. Það var fyrst unnið hreint úr kannabisplöntum og efnagreint fyrir rúmlega 30 árum. Öfugt við nikótín virðist tetrahýdrókannabínól ekki valda banvænum eitrunum hjá mönnum. Tetradýdrókannabínól er einn margra svokallaðra kannabínóíða sem finnast í kannabisplöntunni. Aðrir eru t.d. kannabídíól, kannabínól og kannabíkrómen. Í plöntunni hafa auk þess verið greind nokkur hundruð önnur efni sem einnig er að finna í tóbaksplöntunni, en þó ekki nikótín.

Það fer eftir uppruna og vaxtarskilyrðum kannabisplöntunnar hve mikið hún inniheldur af tetrahýdrókannabínóli og öðrum kannabínóíðum. Í plöntum sem ræktaðar eru á norðlægum slóðum er yfirleitt meira af kannabídíóli en tetrahýdrókannabínóli.

Kannabisplantan er einær, tvíkynja planta, og getur orðið allt að 4-5 m á hæð. Kannabínóíðar finnast bæði í karl- og kvenplöntunni. Blöð plöntunnar eru stór, oft 5-7 fingruð, sagtennt og með löngum stilk. Blómin eru smá og grænleit og skipa sér í blaðaxlirnar. Á smáblöðum sem umlykja blómin og á blómsprotum og víðar eru kirtilhár sem skilja út kvoðu (harpix) sem hefur að geyma kannabínóíða.

Hugtakið kannabis er yfirleitt notað yfir alla hluta kannabisplöntunnar sem innihalda kannabínóíða, þar á meðal tetrahýdrókannabínól. Helstu flokkar eða tegundir kannabis eru hass og maríhúana en einnig hassolía.

  • Hass er mulin, sigtuð, pressuð og stundum hreinsuð kvoða unnin úr kannabisplöntum.
  • Maríhúana samanstendur af blómsprotum og laufi kannabisplantna sem er þurrkað og grófmulið. Magn kannabínóíða í maríhúana er mun minna en í hassi.
  • Hassolía er framleidd með því að láta lífræn leysiefni draga kannabínóíða úr hassi eða kannabisplöntum. Þannig verður þéttni eða magn tetrahýdrókannabínóls og annarra kannabínóíða meira en annars væri hægt að ná.

Magn THC í maríhúana er oft á bilinu 5-10 mg í einu grammi, í hassi er oft 30-70 mg/g og í hassolíu 50-120 mg/g. Maríhúana er venjulega reykt í heimatilbúnum sígarettum. Hass er oftast reykt mulið í pípum eða ýmsum öðrum reykingartólum, en er stundum blandað í te. Hassolía er oftast notuð þannig að nokkrir dropar eru settir í tóbak sem síðan er reykt. Kannabis má einnig neyta við inntöku í ýmsum formum.

Enda þótt kannabis hafi verið notað sem róandi lyf, svefnlyf og verkjadeyfandi lyf, flogaveikilyf og vímugjafi í árþúsundir víða um heim var það samt ekki fyrr en 1964 að sannað þótti að tetrahýdrókannabínól væri hið vímugefandi efni í kannabis og að flest lyfhrif væri að rekja til þess. Enn er því svo farið að minna er vitað um verkanir tetrahýdrókannabínóls en flestra annarra vímugjafa.

Þegar menn reykja kannabis (eins og það er venjulega reykt) með þekktu magni af tetrahýdrókannabínóli berast 20-50% af efninu niður í lungun og inn í blóðrásina. Tetrahýdrókannabínól og aðrir kannabínóíðar eru mjög fituleysanleg efni og flytjast með blóðinu á fáum sekúndum frá lungum og til heila. Sá sem reykir kannabis verður þannig var við verkun þess á örskömmum tíma. Umbrot tetrahýdrókannabínóls í líkamanum taka langan tíma þar sem efnið binst í fituvef og vitað er að umbrotsefni þess má finna í líkama manna marga daga eftir að reykt hefur verið. Þetta er því mjög ólíkt umbrotum etanóls og nikótíns sem gerast hratt. Af þessum sökum getur tetrahýdrókannabínól safnast í líkamanum við áframhaldandi neyslu. Helsta umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls í þvagi er tetrahýdrókannabínólsýra (THC-sýra) og má finna hana í þvagi tvær vikur eða lengur eftir kannabisneyslu.

Skammtar THC sem eru á bilinu 1-5 mg valda því að neytandinn verður á fáum mínútum var við aukinn hjartslátt, þurrk í augum, munni og nefi og lítils háttar óþægindi í öndunarfærum. Hann getur fundið fyrir svima, doða í útlimum, skjálfta í höndum og svita. Kvíði eða ótti innra með sér getur líka komið fyrir. Hin eiginlega víma byrjar litlu síðar. Þá finnur neytandinn ró og vellíðan og höfgi færist yfir hann. Þessar tilfinningar koma oft í bylgjum með draumkenndu ástandi á milli og virðast vera hápunktur vímunnar. Ef neytandinn er einn virðist hann sljór og syfjaður. En ef hann er í góðum félagsskap hlær hann og virðist kátur. Tímaskyn brenglast þannig að tíminn virðist líða mun hægar og fjarlægðarskyn brenglast líka. Einfaldir hlutir í umhverfi mannsins vekja óvænta athygli hans og hann getur skynjað í þeim „dýpt“ sem var honum áður óþekkt. Tónnæmi eykst og neytandanum finnst gjarnan sem öll skynfæri hans verði næmari og opni jafnvel fyrir honum víðáttur skilnings og kennda sem hann þekkti ekki áður. Hlutir í umhverfi neytandans taka á sig annað form en venjulega og jafnvel líkami hans líka. Þessi síðasttöldu atriði eru þó helst áberandi eftir stærri skammta. Víma eftir litla skammta af THC eins og hér er lýst er talin endast lengst í 2-3 klukkustundir. Víma eftir miðlungsskammta THC á bilinu 5-10 mg er mjög svipuð og eftir litla skammta nema hvað áhrifin sem lýst var hér að ofan eru skýrari og meiri, sérstaklega áhrif á skynjanir.

Stórir skammtar af THC eru taldir vera á bilinu 10-20 mg eða meira. Eftir þessa skammta er brenglun skynjana enn meiri en eftir minni skammta. Auk þess getur komið fyrir tegund rangskynjana sem nefnist víxlskynjun. Hún merkir að eitthvert fyrirbæri er skynjað með öðru skynfæri en venjulega, t.d. að heyra liti og sjá tóna. Ef stórir skammtar eru reyktir getur neytandinn fundið fyrir óttakennd og jafnvel ofsahræðslu í stað vellíðunar og róunar. Þá geta komið fyrir svokölluð brot persónumarka, en það þýðir að neytandanum finnst að hluti af honum hverfi til umhverfisins þannig að hann geti skoðað hluta af sjálfum sér utan við persónu sjálfs sín (sbr. einnig lýsingu á lýsergíðvímu á eftir). Ýmsar aðrar rangskynjanir, rugl og æsingur og alvarleg hugsanabrenglun geta líka fylgt stórum skömmtum af THC.

Hér að framan hefur aðallega verið gerð grein fyrir lýsingum neytenda á vímuáhrifum tetrahýdrókannabínóls. Nú verður vikið að hlutlægu mati á viðbrögðum manna í kannabisvímu og byrjað á verkun á taugakerfið.

Eftir litla skammta af THC minnkar geta manna til þess að greina ljósmerki og fylgja hlutum á hreyfingu með augunum. Hreyfingar handa verða ónákvæmari og líklega einnig allar líkamshreyfingar. Gróf ölvunareinkenni eins og þekkjast eftir neyslu áfengis og annarra róandi lyfja og svefnlyfja virðast ekki koma fyrir. Ökumenn sem aka undir áhrifum THC hafa tilhneigingu til þess að aka hægt en það dregur ekki úr því að þeir eru álíka hættulegir í umferðinni og menn sem hafa neytt áfengis. Tilraunir með menn í kannabisvímu benda einnig til þess að geta þeirra til að stjórna vélknúnum farartækjum sér verulega skert.

Nýminni bilar stórlega í kannabisvímu. Neytandinn á þannig erfiðara með að muna atriði sem hann hefur nýlega reynt að tileinka sér svo sem tölur, orð o.fl. Talið er að þessi bilun í nýminni sé af tvennum toga. Í fyrsta lagi verði brestur í sjálfri athyglisgáfunni en síðar bresti geta til þess að tengja nýminni við eldri minnisgeymd sem líta má á sem reynsluforða einstaklingsins. Menn telja nú að brenglun nýminnis liggi að baki ýmissa skyntruflana, hugsanabrenglunar og kennda sem koma fyrir í kannabisvímu.

Þó að litlir skammtar THC dragi greinilega úr námsgetu eru áhrif þess á munnlega tjáningu þó enn greinilegri. Maður í kannabisvímu á oft í verulegum erfiðleikum með að koma orðum að því sem hann vill segja. Það sem hann segir er brotakennt og úr samhengi við það sem hann vildi sagt hafa. Þannig eru menn oft orðlitlir og þegjandalegir í kannabisvímu þó þeir geti verið hláturmildir og kátir á köflum. Truflun á nýminni og brengluð tjáningargeta eða brenglað orðfæri minnir talsvert á Alzheimersjúkdóm nema að ástandið er nær alltaf tímabundið og hverfur á nokkrum tíma þegar kannabisneyslu er hætt (sjá einnig á eftir).

Litlir skammtar tetrahýdrókannabínóls auka tíðni hjartsláttar og blóðþrýstingur fellur. Við langvarandi neyslu kannabis getur vökvi safnast í líkamann af þessum sökum. Þol virðist myndast gegn verkunum THC á hjarta og æðakerfi. Sérlega erfitt er að meta áhrif kannabis á öndunarfæri þar sem meiri hluti þeirra sem reykja kannabis reykir einnig tóbak. TCH sjálft víkkar berkjur. Kannabisreykingar valda hins vegar samdrætti í berkjum og ertingu, sérstaklega ef mikið er reykt. Hjá körlum sem reykja kannabis kann magn karlkynshormóna í blóði að minnka. Í sáðfalli þessara manna virðast vera færri sæðisfrumur en venjulegt er og hreyfingar þeirra minni. Verkun THC eða kannabis á tíðahring og hormónastarfsemi kvenna hefur lítið verið rannsökuð.

Þol gegn tetrahýdrókannabínóli virðist ekki vera mikið ef lítið er reykt. Þol er hins vegar greinilegt gegn flestum verkunum THC ef mikið er reykt. Fráhvarfseinkenni eru þekkt eftir áframhaldandi kannabisneyslu (svefnleysi, órói, klígja o.fl). Þau eru þó yfirleitt væg. Vegna þess hve mjög THC safnast fyrir í líkamanum er við því að búast að þol sé síðkomið og fráhvarfseinkenni væg þegar töku er hætt.

Enginn vafi er á því að kannabis veldur ávana. Sjúkleg fíkn í kannabis er þekkt en er væntanlega sjaldgæf. Í slíkum tilvikum hefur neysla kannabis aukist stig af stigi þannig að víma af völdum þess er orðin þungamiðjan í tilveru viðkomandi einstaklings. THC veldur yfirleitt ekki ásókn í tilraunadýrum og er einn af fáum vímugjöfum sem svo er háttað um. Kannabisneysla er orðin föst í sessi hér á landi.

Bæði eldri og nýrri rannsóknir benda til að THC hamli losun á acetýlkólíni og fleiri boðefnum. Verkun THC á losun acetýlkólíns virðist vera mjög sérhæft fyrirbæri og koma fyrir eftir litla skammta. Í ljósi þessa og þeirra einkenna sem samfara eru neyslu á kannabis er freistandi að ætla að kannabisneysla geti valdið „tímabundnum Alzheimersjúkdómi“ (sjá um Alzheimersjúkdóm á undan).

Nú þykir fullsannað að bæði í heila og í öðrum líffærum séu sérstök kannabisviðtæki (CB viðtæki) og líklegt er talið að verkun THC sé afleiðing af áverkun á þessi viðtæki. Einnig hefur sannast að í líkamanum er mjög fitusækið efni er kallast anandamíð og verkar á CB viðtækin líkt og THC. Frekari rannsóknir á þessum viðtækjum og efnum á borð við anandamíð munu svo endanlega stuðla að því að varpa fyllra ljósi á verkanir THC í líkamanum.

Talsvert hefur verið reynt að nota THC eða afbrigði af því við lækningar (m.a. gegn klígju eða lystarleysi í krabbameinssjúklingum eftir gjöf krabbameinslyfja). Er eitt slíkt lyf skráð í Bandaríkjunum. Í öllum tilvikum er þó völ á ýmist jafngóðum eða betri lyfjum en THC eða afbrigðum þess og hjáverkanir við lækningalega notkun þessara sambanda eru enn fremur umtalsverðar.

Heimild:

Þorkell Jóhannesson (2001). Önnur efni sem ekki eru lyf en teljast til ávana- og fíkniefna. Í Árni Einarsson og Guðni R Björnsson (ritstj.), Fíkniefni og forvarnir, handbók fyrir heimili og skóla (bls. 22-71). Reykjavík: Fræðsla og forvarnir.