Umheimurinn

Tilraunir til að koma í veg fyrir dreifingu og misnotkun ávana- og vímuefna ná allt aftur til 19. aldar. Í ópíumstríðinu 1840-42, sem England hóf til verndar hagsmunum sínum í Kína, var barin niður ein fyrsta tilraunin til að draga úr ópíumneyslu. Á seinni hluta 19. aldar jókst andstaðan gegn ópíumviðskiptum á Vesturlöndum og að frumkvæði Bandaríkjanna samþykktu 13 ríki hina svokölluðu ,,Shanghaiyfirlýsingu“ árið 1909 um takmörkun á ópíumverslun. Tveimur árum síðar, 1911-1912 á svokallaðri Haagráðstefnu var samþykktur sáttmáli 12 þjóða sem hafði þann tilgang að hefta verslun með ópíum og koma í veg fyrir misnotkun þess og skyldra efna, þ.e. morfíns, heróíns og kókaíns. Á þessari ráðstefnu var einnig fjallað um kannabis, en einungis var gefin út yfirlýsing þess efnis að talið væri nauðsynlegt að kanna á vísindalegan hátt áhrif þess og útbreiðslu til að unnt yrði að hefta hugsanlega misnotkun t.d. með löggjöf eða alþjóðasamþykktum. Ísland varð sjálfkrafa aðili að samningnum með undirskrift Danmerkur 1912.

Á fyrsta fundi samkomu þjóðabandalagsins 1920 var sett á laggirnar ráðgjafarnefnd um ópíumviðskipti (Advicery Committe on Traffic in Opium and Other Dangerous Drugs). Í þessari nefnd voru í upphafi eingöngu lönd með eigin ópíumnýlendur og verslunareinokun í Austurlöndum fjær. 1924-1925 og 1931 voru haldnar sambærilegar ráðstefnur. Suður-Afríka lagði til á hinni fyrri að kannabis yrði sett á listann yfir alþjóðlegt eftirlit. Sáttmálinn sem var undirritaður þá náði til fleiri efna en áður, þar á meðal kannabis. Margar þjóðir voru þó í vafa um gildi þess að bæta því á listann og bentu á hlutverk efnisins í trúarlegu og félagslegu samhengi og hugsanlega afleiðingu slíks banns, t.d. aukna áfengisneyslu.

Á ráðstefnu 1961, sem fjárhags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna hélt, var gengið frá sáttmála sem nefndist ,,Single Convention on Narcotic Drugs“. Samkvæmt sáttmálanum ber aðildarríkjunum að hafa eftirlit með og takmarka framleiðslu og verslun með þau efni sem ákvæði hans taka til. Í sáttmálanum var efnunum skipti í flokka eftir því hve skaðvænleg þau voru talin. Þessi flokkun er nú að ýmsu leyti ófullkomin, LSD og amfetamín stóðu t.d. utan þessara flokka. 73 þjóðir áttu fulltrúa á þessari ráðstefnu en sáttmálai hennar gekk í gildi 1964, er 40 ríki höfðu fullgilt hann. 1971 var gerður nýr sáttmáli um svokölluð ,,psychotropic substances“ sem tók sérstaklega til nýrra fíkniefna og lyfja. Fyrri sáttmálinn tók gildi á Íslandi 1975, en sá seinni 1976.

Eftirfarandi samantekt á stöðu kannabismála í Evrópu er á vefsíðunni http://www.evropuvefur.is/:

Evrópusambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á sviði fíkniefnamála heldur fara aðildarríkin sjálf með slíkar valdheimildir. Samkvæmt alþjóðasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna er kannabis (hass, marijúana (stundum kallað gras) og hassolía) skilgreint sem fíkniefni. Ríki sem aðild eiga að samningunum hafa skuldbundið sig til að taka upp í landslög refsiákvæði við framleiðslu, smygli, afhendingu og dreifingu slíkra efna. Hins vegar eru engir alþjóðasamningar til sem kveða á um refsingar við notkun og vörslu kannabis og er það því í höndum sérhvers ríkis að skilgreina það í landsrétti sínum. Kannabis er ólöglegt í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins en ríkjunum er þó frjálst að afnema eða milda refsingar við notkun og vörslu slíkra efna.

Lögleiðing marijúana og/eða annarra kannabisefna hefði í för með sér að varsla þeirra yrði heimil og stjórnvöld tiltekins ríkis mundu stjórna og hafa eftirlit með framleiðslu og dreifingu kannabisefnanna. Þrír alþjóðasamningar á vegum Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningur um ávana- og fíkniefni frá árinu 1961, alþjóðasamningur um skynvilluefni frá árinu 1971 og samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá árinu 1988, koma þó í veg fyrir að samningsaðilar geti lögleitt framleiðslu kannabis og dreifingu og þar með kannabis sem vöru. Öll aðildarríki Evrópusambandsins og Ísland eru aðilar að þessum samningum.

Evrópusambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á sviði fíkniefnamála heldur fara aðildarríkin sjálf með þær valdheimildir, í samræmi við þjóðarétt. Í sáttmálum Evrópusambandsins er þó gert ráð fyrir að sambandið beiti sér „til fyllingar aðgerðum aðildarríkjanna til að draga úr heilsutapi vegna ávana- og fíknilyfja“, til að mynda með aukinni upplýsingagjöf og forvörnum (3. mgr. 1. liðar 168. gr. sáttmálans um starfshætti ESB). Evrópusambandið kom til að mynda á fót Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn árið 1993 og gegnir hún lykilhlutverki við veitingu áreiðanlegra upplýsinga um fíkniefnamálefni.

Málefni sem tengjast kannabis hafa einnig verið rædd á vettvangi Evrópuþingsins. Árið 1997 var D´Ancona-skýrslan rædd á þinginu en í henni var til að mynda lagt til að fíkniefnalöggjöf aðildarríkja sambandsins yrði samræmd. Árið 2003 var önnur skýrsla rædd á Evrópuþinginu (Van Buitenweg-skýrslan) en í henni var að finna tilmæli um að gerðar yrðu breytingar á alþjóðasamningum SÞ um fíkniefni og að refsingar við notkun kannabisefna skyldu afnumdar í öllum aðildarríkjum sambandsins. Evrópuþingið samþykkti hvoruga skýrsluna, einkum vegna ólíkra viðhorfa Evrópuþingmanna til málaflokksins.

Ráð Evrópusambandsins hefur einnig samþykkt valfrjálsar ályktanir eins og ályktun frá árinu 2004 þar sem aðildarríki sambandsins voru hvött til að gera allar mögulegar ráðstafanir til að draga úr kannabisneyslu í heimalöndum sínum. Ályktunin mælti til dæmis með því að aðildarríki gripu til aðgerða gegn vefsíðum sem veita upplýsingar um ræktun kannabisplantna og/eða hvetja til notkunar á kannabis (sbr. 21. lið).

Auk þess hefur Evrópusambandið samþykkt fjölda aðgerðaráætlana í baráttunni gegn fíkniefnum en markmið þeirra er að samræma stefnur aðildarríkjanna gegn fíkniefnasmygli og framboði á fíkniefnum innan sambandsins fremur en að leggja línurnar varðandi fíkniefnanotkun evrópskra eiturlyfjaneytenda. Núverandi áætlun gildir fyrir tímabilið 2013-2020.

Samkvæmt nýlegri skýrslu frönsku athugunarstöðvarinnar um ávana- og fíkniefni er hægt að flokka aðildarríki Evrópusambandsins í þrjá mismunandi hópa eftir því hvernig tekið er á einstaklingum sem neyta kannabis:

  • Í fimm ESB-ríkjum varðar neysla kannabis við hegningarlög; í Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Kýpur og Svíþjóð.
  • Í sjö ESB-ríkjum varðar neysla kannabis stjórnsýsluviðurlögum; í Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Lúxemborg, Portúgal og á Spáni.
  • Í fimmtán ESB-ríkjum er neysla kannabis ekki bönnuð í lögum en varsla þess í litlu magni til einkanota varðar annað hvort við hegningarlög eða stjórnsýsluviðurlögum. Þannig er það í Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Írlandi, á Ítalíu, Möltu, í Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.
  • Í flestum aðildarríkjum ESB varðar varsla kannabisefna við hegningarlög en í nokkrum ESB-ríkjum varðar hún stjórnsýsluviðurlögum ef magn efnisins er undir ákveðnu viðmiði og efnin einungis ætluð til einkanota.
  • Í sjö ESB-ríkjum varðar varsla lítils magns kannabis til einkanota stjórnsýsluviðurlögum; í Eistlandi (tvö fyrstu skiptin), á Ítalíu, í Lettlandi, Portúgal, Slóveníu, á Spáni og í Tékklandi. Viðurlögin eru mismunandi eftir ríkjum en sem dæmi má nefna viðvaranir, fésektir, tímabundna eða ótímabundna sviptingu ökuskírteinis og/eða vegabréfs.
  • Í sjö af þeim tuttugu ESB-ríkjum þar sem varsla kannabisefna til einkanota varðar við hegningarlög eru engin viðurlög skilgreind í landslögum og því ekki refsað fyrir slík brot. Þannig er löggjöfin í Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Lúxemborg, Póllandi og Þýskalandi. Magn kannabis sem einstaklingar mega hafa í fórum sínum er breytilegt eftir ríkjum og er til að mynda takmarkað við 3 g í Belgíu, 5 g í Portúgal og Tékklandi, 6-15 g í Þýskalandi, 25 g á Spáni.
    Það er því í sjö ESB-ríkjum sem hvorki neysla kannabisefna né varsla þeirra, í litlu magni og til einkanota, varðar við hegningarlög; í Eistlandi, á Ítalíu, í Lettlandi, Portúgal, Slóveníu, á Spáni og í Tékklandi. Þess ber þó að geta að fleiri ríki leyfa neyslu kannabis í lækningaskyni. Þau eru Belgía, Bretland, Holland, Spánn, Tékkland og Þýskaland.

Lögleiðing kannabis hefur því ekki átt sér stað í neinu aðildarríki Evrópusambandsins. Með því að afnema refsingu við neyslu eða vörslu kannabisefna er ekki verið að lögleiða fíkniefnin, heldur er neysla og varsla slíkra efna ekki lengur refsiverð.

Kannabisefni eru algengustu ólöglegu vímuefnin sem notuð eru í heiminum. Um það bil 147 milljón manns, eða 2,5% af íbúum heimsins nota kannabis, samanborið við 0,2% sem nota kókaín og 0,2% sem nota ópíöt. Frá 1960 hefur neysluaukningin verið mest í Norður-Ameríku, Vestur-Evrópu og Ástralíu. Upphafsaldur við kannabisnotkun er einnig lægri en við notkun annarra ólöglegra vímuefna.

Heimildir:

  • Ómar H Kristmundsson (1985). Ólögleg ávana- og fíkniefni á Íslandi. Reykjavík. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
  • Evrópuvefurinn. (Sótt á netið 20. mars 2015.)