Lögleiðing normaliserar og veitir ákveðið samþykki fyrir notkun

Í umsögn IOGT á Íslandi um þau áform heilbrigðisráðherra að afglæpavæða neysluskammta á vímuefnum er bent á mörg áleitin álitamál sem upp koma og alþingismenn ættu að gaumgæfa vel ef málið kemur til kasta þingsins.

Í umsögninni segir meðal annars að þegar við finnum skaðleg eiturefni í umhverfinum þá reynum við fjarlægjum þau úr umhverfinu, takmarka aðgang og notkun. Bann við notkun þeirra auðveldar öllum ákvarðanatöku. Líka foreldrum og unglingum.

Svo er spurt: Hverjir græða mest á að lögleiða neysluskammta? Ekki fólkið með alvarlega vímuefnaröskun. Ekki þeir sem ætla sér að neyta í tómstundum sínum og eiga í hættu að þróa með sér röskun. Nei, þeir sem græða mest er fíkniefnaiðnaðurinn. Einu skrefi nær að leyfa kaup og sölu, sem væri draumastaða fyrir fíkniefnaiðnaðinn.

Þessari grundvallarspurningu er einnig varpað fram: Fíkniefnaiðnaðurinn er stöðugt að þróa ný vímuefni, mörg þeirra mun hættulegri en þau fyrri. Verða þau sjálfkrafa leyfð?

Í dag er viðvarandi skortur á meðferð og úrræðum og stjórnvöld láta forvarnir sitja á hakanum. Sérstaklega þær forvarnir sem hvetja fólk til að sleppa alveg fíkniefnum. Falleg loforð gefin en lítið staðið við þau. Frekar skorið niður en hitt. Það vantar heildarstefnu til lengri tíma með miklu meira fjármagni, segir einnig í umsögn IOGT.

Sjá nánar: https://iogt.is/2021/02/01/umsogn-iogt-um-aform-um-frumvarp-til-laga-um-breytingu-a-logum-um-avana-og-fikniefni-afglaepavaeding-neysluskammta/