Bara gras? er upplýsingaverkefni sem sett var á laggirnar árið 2010 af Samstarfi félagasamtaka um forvarnir (SAFF). SAFF var stofnað árið 2004 og er samstarfs- og upplýsingavettvangur íslenskra félagasamtaka sem vinna að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Verkefnið er nú í höndum Fræðslu og forvarna (FRÆ), fræðslu- og upplýsingamiðstöðvar í forvörnum og heilsueflingu í samstarfi við SAFF.
Verkefnið Bara gras? felst einkum í þrennu: Í fyrsta lagi að standa að upplýsingavefsíðu um kannabis; öðru lagi að standa að fræðslufundum fyrir foreldra og aðra uppalendur um áhrif kannabisneyslu; þriðja lagi að standa að fræðslu fyrir kennara og annað starfsfólks skóla, og starfsfólk í æskulýðs- og íþróttastarfi. Auk þess er ætlunin að taka saman upplýsingar um kannabis og gera aðgengilegar til nota í framangreindum tilgangi.
Hvenær?
Verkefnið Bara gras? hófst á degi Sameinuðu þjóðanna gegn fíkniefnum – 26. júní 2010 en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu í desember 1987 að tileinka 26. júní ár hvert alþjóðlegri baráttu gegn fíkniefnum (International Day against Drug Abuse and Illicit Trafficking) til þess að vekja athygli á fíkniefnavandanum og hvetja til samstarfs í fíkniefnamálum.
Hvers vegna?
Nú á sér stað umræða sem gerir lítið úr áhættunni sem fylgir neyslu kannabisefna og grefur undan varnaðarorðum gegn henni. Jafnvel er lagt til að heimila, notkun, sölu og dreifingu þessara efna (lögleyfa þau). Ýmis skaðleg áhrif kannabisneyslu eru þekkt sem mikilvægt er að börn og unglingar viti um. Það sama gildir um foreldra, kennara og annarra sem eiga að standa vörð um hag og velferð þeirra.
Verkefnið Bara gras? er sett upp til að mæta þörf fyrir upplýsingar um áhrif kannabiss m.a. vegna þess að:
- Kannabis er algengasta ávana- og vímuefnið á Íslandi á eftir áfengi.
- Stóraukin ræktun hefur orðið á kannabisplöntum á Íslandi.
- Skortur er á málefnalegri umfjöllun í fjölmiðlum um skaðsemi kannabisneyslu.
- Kannabis er sagt vera lækningalyf og tíð umræða er um lögleiðingu.
- Fá forvarnaverkefni leggja áherslu á kannabis.
- Kannabis er mjög ávanabindandi.
- Víðtækur doði virðist ríkja gagnvart neyslu kannabisefna og mikið um rangar upplýsingar meðal ungs fólks og foreldra.
Hvernig?
Vefsíða
Á vefsíðunni baragras.is eru birtar ýmsar upplýsingar um kannabis og neyslu kannabisefna. Lögð er áhersla á að birta aðeins upplýsingar frá traustum opinberum aðilum og upplýsingar sem byggja á áreiðanlegum rannsóknum. Birtar eru fréttir og greinar sem tengjast kannabisi og sagt frá viðburðum sem tengjast verkefninu og framvindu þess.
Málþing og fræðslufundir – Verum vakandi
Málþing um kannabis hafa verið sett upp í mörgum byggðarlögum víðs vegar um land. Markmið þeirra er að virkja, hvetja og styrkja foreldra og aðra uppalendur í forvörnum og efna til umræðu um kannabismál.
Skipulagning og framkvæmd málþinganna er í höndum FRÆ, félagasamtaka og stofnana á hverjum stað. Lögð er áhersla á að fyrirlesarar á málþingunum koma m.a. af viðkomandi stöðum eða næsta nágrenni og varpa ljósi á aðstæður, ástand, þróun og möguleika í heimsbyggð og nærsamfélaginu til viðbragða og úrræða.
Námskeið
Í tengslum við verkefnið eru haldin námskeið sem einkum eru ætluð kennurum og öðru starfsfólki grunn- og framhaldsskóla, starfsfólki félagsmiðstöðva og starfsfólki íþrótta- og æskulýðsfélaga.
Á þeim er fjallað um þróun ávana- og vímuefnaneyslu á Íslandi síðustu árin með áherslu á kannabis, heilsufarsleg, lífeðlisfræðileg og félagsleg áhrif kannabisneyslu, fíknmyndum kannabiss og meðferð, áherslur og strauma í alþjóðlegu samhengi, s.s. umræður um lögleyfingu.