Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ætlar að leggja fram breytt og bætt frumvarp um lögleyfingu neysluskammta ávana- og vímuefna strax á fyrstu dögum þingsins næsta haust. Frumvarpið er komið í hendur starfshóps sem meðal annars er skipaður fagfólki.

Heilbrigðisráðherra segir að í starfshópnum eigi að ná betur utan um málið, safna gögnum og skilgreina hugtök. „Þessi starfshópur hefur það verkefni að ná utan um skilgreiningu neysluskammta samhliða öðrum skaðaminnkandi úrræðum og forvörnum. Þannig að ég er búinn að setja málið í mjög breitt samráð sem oft er nú kallað eftir og svo hyggst ég fá að leggja þetta fram á haustþingi það eru nú bara fimm mánuðir í það,“ segir Willum í viðtali við RUV.