Skert greindarvísitala (IQ) rakin til tíðrar kannabisneyslu í æsku í niðurstöðum safngreiningar (meta-analysis) á langtímarannsóknum á áhrifum kannabisneyslu
Rannsóknin leiddi í ljós að greindarvísitala unglinga sem nota oft kannabis getur lækkað með tímanum. Niðurstöður rannsóknarinnar veita frekari innsýn í skaðleg taugafræðileg og vitræn áhrif tíðrar kannabisneyslu á ungt fólk. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að lækkunin nam um það bil tveimur greindarvísitölustigum hjá þeim sem notuðu kannabis oft samanborið við þá sem notuðu ekki kannabis. Frekari greining benti til þess að þessi lækkun greindarvísitölustiga tengdist fyrst og fremst lækkun á munnlegri greindarvísitölu.
Rannsóknin var gerð af vísindamönnum á geðdeild, RCSI og Beaumont sjúkrahúsinu í Dublin (prófessor Mary Cannon, Dr Emmet Power, Sophie Sabherwal, Dr Colm Healy, Dr Aisling O’Neill og prófessor David Cotter). Grein um rannsóknina sem unnin var undir forystu vísindamanna við RCSI læknaháskóla, er birt í Psychological Medicine.
Rannsóknin fól í sér kerfisbundna endurskoðun og tölfræðilegar greiningar á sjö langtímarannsókunum sem náðu til 808 ungmennum sem notuðu kannabis að minnsta kosti vikulega í að lágmarki 6 mánuði og til samanburðar 5308 ungmenni sem notuðu ekki kannabis. Unga fólkinu var fylgt eftir til 18 ára aldurs að meðaltali, ein rannsókn fylgdi þó unga fólkinu eftir til 38 ára aldurs.
,,Fyrri rannsóknir segja okkur að ungu fólki sem notar kannabis vegnar oft ver í lífinu en jafnöldrum þeirra og er í aukinni hættu varðandi alvarlega geðsjúkdóma eins og geðklofa. Tap greindarvísitölu snemma á ævinni gæti haft veruleg áhrif á frammistöðu í skóla og háskóla og síðar atvinnuhorfur,“ segir Mary Cannon, prófessor í sálfræðilegri faraldsfræði og geðheilsu ungmenna við RCSI.
,,Kannabisneysla á æskuárum er mikið áhyggjuefni þar sem heilinn er þá í þróun og getur verið sérstaklega næmur fyrir skaða á þessu tímabili. Niðurstöður þessarar rannsóknar hjálpa okkur að skilja frekar þetta mikilvæga lýðheilsumál,“ segir Dr Emmet Power, klínískur rannsakandi við RCSI. og stjórnandi rannsóknarinnar.
Sjá greinina sem vísað er í: Power, E., et al. (2021) Intelligence quotient decline following frequent or dependent cannabis use in youth: a systematic review and meta-analysis of longitudinal studies. Psychological Medicine. doi.org/10.1017/S0033291720005036.