Í viðtali við Fréttablaðið segir Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss að um fjögur þúsund barna á aldrinum 12 til 18 ára hér á landi sé í fikti eða neyslu vímuefna. Rúmlega 28 þúsund börn eru alls á þessum aldri í landinu.

Tölurnar koma frá barnaverndum sveitarfélaga og rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir og greining. Í fyrra voru alls 13.264 tilkynningar. Á árunum 2019 til 2020 fjölgaði samanlögðum fjölda tilkynninga um eitt þúsund.

Berglind óttast að hér verði fjölskyldur þar sem margar kynslóðir glími við sama vandann.

„Ég hef verið með marga unga foreldra í viðtölum hjá mér, margir hafa eignast barn í von um að hætta í neyslu. Fíknin er enn til staðar, sumir foreldrar geta athafnað sig tiltölulega eðlilega í þjóðfélaginu og verið samt í neyslu, en þetta getur auðveldlega leitt til alvarlegra truflana á uppeldi og bitnar þá á börnunum, framtíðinni okkar,“ segir hún.