Tengsl milli reglulegrar kannabisneyslu unglingsstráka og geðrofs snemma á fullorðinsárum hafin yfir vafa

Í aðsendri grein í Fréttablaðið 24. október 2018 segir Skúli Magnússon, héraðsdómari og fyrrverandi formaður Dómarafélags Íslands að á síðustu árum hafi svonefndum lögræðissviptingarmálum fjölgað umtalsvert fyrir héraðsdómi, en undir þessi mál fellur hvers kyns nauðungarvistun vegna geðsjúkdóma.

Skúli segir einnig að merkjanlegan hluta þessara lögræðissviptingarmála megi rekja til ungra manna sem eru ekki einungis með fíknivanda heldur alvarlega geðræna erfiðleika. Segir Skúli að þessir erfiðleikar séu oft á því stigi að nauðungarvistun um lengri tíma er talin nauðsynleg og fyrirsjáanlegt að þeir þurfi meðferð og aðhlynningu alla sína ævi.

Þessir strákar eiga það sameiginlegt, að mati Skúla, að hafa byrjað reglulega neyslu kannabis ungir, yfirleitt 12-14 ára, og alvarlegur geðsjúkdómur hefur gert vart við sig þegar fyrir tvítugt. Sláandi sé hversu eitt mál er líkt því næsta m.t.t. neyslusögu og þróunar einkenna.

„Það hlýtur að vera alger lágmarkskrafa að hver einasti íslenski strákur undir 15 ára aldri hafi verið vandlega upplýstur um þá sérstöku og óvenjulegu áhættu sem hann tekur með neyslu kannabisefna á þessu skeiði lífs síns. Er víst að þeirri kröfu sé fullnægt?, spyr Skúli í grein sinni.

Sjá grein Skúla á bls. 12 í Fréttablaðinu.