„Ég er búinn að vinna í 30 ár sem geðlæknir og það er ekkert sem ég er eins hræddur við og kannabisefnin.“

Í samevrópsku könnuninni ESPAD sem Ísland er þátttakandi í kemur fram að 15 ára unglingar á Íslandi telja nú (árið 2015) kannabisefni síður skaðleg en í fyrstu könnuninni sem gerð var árið 1995. Árið 1995 töldu 1,9% unglinganna að lítil eða engin áhætta fylgdi reglulegri kannabisneyslu. Í síðustu könnun sem gerð var árið 2015 segjast hins vegar 10,7% telja neysluna áhættusama. Á sama tíma hefur þeim einnig fækkað sem telja mikla hættu stafa af kannabisreykingum.

Í samtali á Bylgjunni 19. september síðastliðinn lýsir Ólafur Þór Ævarsson áhyggjum sínum af þessari þróun og minnir á skaðsemi kannabisneyslu sem öll fræði bendi til að sé til staðar. Meðal þess sem hann bendir á er að kannabisneysla minnkar einbeitingu og dómgreind og stuðlar þannig að samskiptatruflunum og minnkuðu álagsþoli og námserfiðleikum. Hann bendir einnig á að neysla kannabisefna auki líkur á geðrænum sjúkdómum hjá ungu fólki. „Og eykur hreinlega sjúkdómshættuna, getur espað upp sjúkdóma sem annars kæmu ekki fram sem oft eru mjög alvarlegir;“ segir hann. Ólafur bendir á að hundruð einstaklinga leiti sér aðstoðar á Vogi ár hvert vegna kannabisneyslu. „Þetta eru mjög sláandi upplýsingar,“ segir hann og bætir við að þessi skilaboð þurfi að komast til ungmenna. „Það þarf að fræða krakkana um hvað þetta er hættulegt.“

Sjá nánari umfjöllun hér og hér.