Brýnt að gera átak í forvörnum og fræðslu um skaðsemi kannabis

Ungmennum sem lenda í geðrænum vanda af kannabisreykingum fjölgar, segir framkvæmdastjóri Geðhjálpar í viðtali við RUV. Dæmi eru um að öflugir námsmenn verði öryrkjar á tveimur til þremur árum af völdum reykinganna,

Í umfjöllun RUV um málið segir að 1.800 manns hafi í fyrra verið úrskurðaðir öryrkjar í fyrsta sinn. Þetta eru rúmlega fimmtungi fleiri en 2015. Mikil fjölgun er meðal ungs fólks.

Í upplýsingum frá Tryggingastofnun segir að í aldurshópnum 15-19 ára séu geðraskanir langalgengasta ástæða örorku. Þannig voru 95 af 135 manns með geðraskanir. Það á líka við aldurshópana 20-24 ára og 25-29 ára, flestir fá örorkumat vegna geðraskana. Á fertugsaldrinum fara svo aðrar ástæður að verða algengari en geðraskanir þó algengasta einstaka skýringin á því að fólk verður öryrkjar.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að margt geti skýrt það að svo margt ungt fólk glímir við geðraskanir eins og slæmt aðgengi að sálfræðiþjónustu, auknar kröfur og eftirspurn eftir ungu fólki sem vinnuafli á sama tíma og framhaldsskólinn hafi verið styttur um eitt ár.  „En okkur heyrist að það sé mikil fjölgun á tvíþættum vanda, að ungt fólk sé að veikjast, sérstaklega eftir kannabisreykingar, fari í geðrof. Eitthvað af þessu fólki myndi veikjast en þá seinna á ævinni og verða þá fyrir minni áhrifum og sumir kannski aldrei. Og það er hræðilegt til þess að vita að ungt fólk virðist ekki gera sér grein fyrir þessari miklu hættu,“ segir Anna Gunnhildur.

Brýnt sé að gera átak í forvörnum og fræðslu um skaðsemi kannabis. „Við erum að tala um að á hverju ári veikjast 30-40 einstaklingar á aldrinum 18-25 ára af tvíþættum vanda. Við höfum heyrt frá ættingjum, foreldrum, sögur um menn sem hafa verið að standa sig frábærlega vel í skóla og íþróttum, átt marga vini og verið algjörlega á beinu brautinni en svo veikst og eru kannski orðnir öryrkjar tveimur til þremur árum seinna. Þetta eru hræðileg dæmi,“ segir Anna Gunnhildur. Þetta séu ungmenni sem hafi orðið öryrkjar af kannabisreykingum. „Já, það þarf ekkert endilega að vera að magnið skipti máli. Það getur alveg gerst ef það er undirliggjandi, eftir fyrstu reykingarnar. Þannig að þetta er veruleg hætta sem fólk verður að átta sig á,“ segir Anna Gunnhildur.

Sjá viðtalið við Önnu Gunnhildi og umfjöllun RUV hér.