,,Þurfum að fylgjast með reynslu annarra þjóða og taka mið af því sem reynist best“

Í tveimur síðustu fréttaskýringaþáttum Kveiks á RUV er fjallað um kannabis á Íslandi (20. og 27. febrúar). Víða er komið við í þáttunum tveimur, fjallað er meðal annars um ræktun og dreifingu efnanna hér á landi, vanda vegna kannabisneyslu og opinbera stefnumörkun.

Fram kom að talið er að framleiðsla kannabisefna hér á landi sé mikil, svo mikil að hún uppfylli efirspurnina og smygl virðist ekki lengur stundað. Auðvelt sé að verða sér úti um búnað sem þarf til framleiðslunnar með löglegum hætti. Það er bannað að nota og rækta kannabis hérlendis og hefur verið með skýrum hætti frá árinu 1969, en þá var sett reglugerð þar sem notkun á kannabis og LSD var bönnuð. Samkvæmt könnunum er mikill meirihluti Íslendinga sáttur við það fyrirkomulag.

Öðru hverju gýs upp umræða um lögleiðingu kannabis. Fá ríki hafa þó farið þá leið, þótt þeim fari fjölgandi. Í Evrópu var Holland lengi vel eitt í þeim hópi, en þar var sala og neysla á kannabisefnum opinberlega liðin árið 1976 – með talsverðum skilyrðum og takmörkunum sem breyst hafa í gegnum árin. En, nú hefur Spánn, Portúgal og fleiri lönd bæst við og umræða um lögleiðingu eða afglæpavæðingu skotið upp kollinum víðar. Kaliforníuríki lögleiddi kannabis um síðustu áramót, þar sem fullorðin manneskja má eiga sex plöntur og eina únsu, tæp 30 grömm af marijúana á hverjum tíma.

Hérlendis hefur umræða um lögleiðingu lengst af einskorðast við ákveðna hópa og ekki náð inn á Alþingi eða inn í stjórnmálaflokkana að nokkru marki, nema helst hjá Pírötum – en í haust lagði Pawel Bartozek, þá þingmaður Viðreisnar, fram frumvarp um lögleiðingu kannabis. Þrír þingmenn voru meðflutningsmenn, einn úr Viðreisn og tveir Píratar. Þetta gerðist reyndar skömmu eftir að ríkisstjórnin sprakk og fór því ekki lengra að sinni.

Núverandi stefna hefur verið gagnrýnd meðal annars á þeirri forsendu að hún geri alla neytendur að afbrotafólki með því að það fari á sakaskrá við það að vera tekið með kannabisefni í fórum sínum, einnig að neytendur hafi engar upplýsingar um innihald efnanna og að sala og dreifing sé neðanjarðarstarfsemi sem skapi ýmiss konar vanda.

Á móti eru rökin um skaðsemi efnanna. Þyngst eru rökin um að auðvldara aðgengi auki almennt neysluna og þar með fjölgi þeim sem lengi í vanda vegna hennar. Að efnin haldi áfram að vera ávanabindandi þrátt fyrir að neysla þeirra verði heimiluð og að með tilslökunum sé verið að ,,normalisera“, það er að gera hana sjálfsagðari.

En umræðan er í gangi í samfélaginu og mismunandi sjónarmið uppi. Talsverður tilfinningahiti einkennir hana og ofur einföldun á staðreyndum og þeirri þekkingu sem til staðar er áberandi. Sú nálgun er sennilega ekki heppileg til þess að ná skynsamlegri niðurstöðu. Það er full ástæða til þess að fara varlega og fara sér hægt eins og Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, einn viðmælendanna í þáttunum segir: „Við þurfum að fylgjast með reynslu annarra þjóða, hvernig þetta reynist hjá t.d. Bandaríkjunum, en líka ýmislegt sem er að gerast líka í Evrópu. Við eigum bara að taka mið af því sem reynist best.“

Sjá samantekt RUV á þáttunum http://www.ruv.is/frett/margvislegir-gallar-i-nuverandi-fyrirkomulagi