„Þeir sem hafa rómantískar hugmyndir um kannabis og telja að þar sé skaðlaust efni á ferð ættu kannski að ímynda sér hvernig það er að vera vistaður á geðdeild“
Í áhrifaríku viðtali í DV fyrir skömmu lýsir móðir ungs kannabisfíkils sögu hans og áhrifum neyslunnar á líf hans og heilsu. Viðtalið er þörf áminning og mikilvægt innlegg í umræðuna um skaðleysi kannabisefna og minnir okkur einnig á að hvernig allt fjölskyldulífið fer úr skorðum og hve þjáning foreldra og aðstandenda er mikil.
Neysla sonarins hafði mikil áhrif á fjölskylduna eins og móðirin lýsir svo sterkt: „Þetta hefur verið sorgarferli sem hefur haft áhrif á alla. Það hafa allir grátið yfir því hvernig fór, enda var hann vonarstjarnan í fjölskyldunni; strákurinn sem hljóp hraðast og skein skærast, má segja. Sjálf hef ég grátið heilu balana af tárum yfir því að eiga strák sem fór í þessa vegferð.“
Það er ástæða til þess að hvetja fólk til að lesa þetta einlæga viðtal hugrakkrar móður.