Þeir sem byrja ungir missa oft fótanna
Þeir sem byrja að reykja kannabis ungir missa oft fótanna um tvítugt. Geðlæknirinn Andrés Magnússon segir að þau sem ánetjist kannabis og reyki það daglega þurfi að glíma við ýmis geðræn einkenni í kjölfarið, jafnvel geðklofa.
Hann segir að fráhvarfseinkenni séu mikil hjá þeim sem reyni að hætta að nota efnið. Þá segir hann að margar rannsóknir bendi til þess að ekki komist allir út úr þessum vítahring. Þegar menn hafa verið undir áhrifum kannabis árin sem þeir eru að þroskast, raunverulega að kynnast sjálfum sér, þá missa þeir fótanna um tvítugt. Andrés segir að fíklar sem hafa verið í dagreykingum og hætti glími við mikil fráhvörf og þurfi oft að leggjast inn með alvarleg einkenni og svari illa lyfjagjöf. Maður þarf stundum að bíða einn til tvo mánuði þar til menn komast út úr þessu ástandi. Kannabis er fituleysanlegt, safnast upp í líkamanum og er lengi að skilast út. Þetta eru langvinn alvarleg geðræn einkenni.
Andrés er á meðal fyrirlesara á ráðstefnu um kannabisefni og áhrif þeirra á vegum Lýðheilsufélags læknanema.