Telja kannabis valda geðrofssjúkdómum
Fráhvarfseinkenni eru mikil hjá þeim sem reyni að hætta að nota efnið. Margar rannsóknir benda til þess að ekki komist allir út úr þessum vítahring. Þegar menn hafa verið undir áhrifum kannabis árin sem þeir eru að þroskast, raunverulega að kynnast sjálfum sér, þá missa þeir fótanna um tvítugt.
Mikil kannabis neysla getur orsakað og komið af stað einkennum geðrofs sjúkdóma hjá ungu fólki. Því yngra sem fólk er þegar það byrjar að reykja kannabis þeim mun meiri líkur eru á því að það endi inn á geðdeild síðar meir. Þetta er mat og reynsla Andrésar Magnússonar, geðlæknis á Landspítalanum. „Ef fólk er í áhættuhópi lítur allt út fyrir að kannabis geti valdið geðrofi,“ segir hann.
„Þetta hefur verið mikið rannsakað og svo virðist sem þeim sem byrja ungir að reykja kannabis sé hættara við að lenda inni á geðdeild með alvarlega geðrofssjúkdóma.“ Hann segir samhengið mikið rannsakað úti í heimi og vísar sér í lagi í eina rannsókn sem gerð var á sænskum nýliðum í hernum og fylgt var eftir í fimmtán ár. Í ljós kom að þeir sem notuðu kannabis oftar en fimmtíu sinnum sexfölduðu líkurnar á geðklofa.
„Það er verið að skoða alla mögulega vinkla á þessu. En mín klíníska reynsla er sú að þetta kemur fram hjá fólki sem byrjar að reykja ungt, svo hættir það og eftir fimm til sjö daga þróar það með sér geðrofseinkenni og er oft mjög lengi inni á geðdeild,“ segir hann.
Guðrún Dóra Bjarnadóttir, umsjónardeildarlæknir á geðsviði LSH, tekur undir orð Andrésar en undirstrikar að orsakasamhengið hafi enn ekki verið fullsannað. „Það er urmull af greinum til um tengsl geðrofssjúkdóma og kannabis, en það er ekki algjörlega búið að sanna að kannabis geti stuðlað að geðrofi en það virðist allt vera að stefna í þá átt með nýjustu rannsóknum,“ segir hún. Það sé þó alveg skýrt að með neyslu kannabisefna geti einkenni geðrofssjúkdóma komið fram allt að tveimur árum fyrr en ella þegar fólk í áhættuhópi á í hlut.
„Það skiptir miklu máli. Það munar hvort einstaklingur er átján ára eða tuttugu þegar sjúkdómurinn kemur fram upp á þroska og innsæi í sjúkdóminn,“ segir hún.
Viðtal við Andrés og Guðrúnu Dóru í Fréttablaðinu 31. janúar 2013