Ný vefsíða um skaðsemi kannabisefna
Ný vefsíða um skaðsemi kannabisefna,www.kannabis.is, var opnuð nýlega. Síðan er ætluð bæði almenningi og heilbrigðisstarfsfólki. Að henni stendur Fræðslufélag fagfólks um kannabisneyslu. Í því eru læknar, læknanemar og hjúkrunarfræðingur.
Markmið félagsins er að stuðla að auknum forvörnum gegn notkun kannabis. Á síðunni eru ýmsar upplýsingar um áhrif kannabisefna á mannslíkamann byggðar á rannsóknum sem birst hafa í gagnreyndum vísindatímaritum.
Í viðtali á visir.is segir Arnar Jan Jónsson, einn af aðstandendum síðunnar, að hann hafi í starfi sínu sem læknir áttað sig á því að mikill misskiningur ríkti um kannabisefni. Það hafi orðið til þess að hann ákvað að búa til heimasíðu um skaðsemi kannabiss í samstarfi við Engilbert Sigurðsson og Heru Birgisdóttur.
„Ég uppgötvaði að fólk leit ekki á kannabis sem raunverulegt fíkniefni. Það setti efnið í sérhillu. Það fannst mér afar áhugavert og fór í framhaldinu að kynna mér kannabis. Fólk gerir sér engan veginn grein fyrir hversu skaðlegt efnið getur verið,“ segir Arnar, sem reyndi að fræða sjúklingana á deildinni en með afar litlum árangri.
„Þeir meðtóku ekki það sem ég sagði. Þannig að ég fór að leita að fræðsluefni en fann bara leiðbeiningar um hvernig ætti að nota efnið.“