Misskilningur að fíklar séu sendir í fangelsi vegna fíkniefnaneyslu

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari segir í viðtali við RUV að sér finnist gæta nokkurs misskilnings í umræðunni, þegar talað sé um að fíklum sé stungið í fangelsi.

Saksóknari segir að erfitt sé að segja til um hversu mikið myndi í raun breytast ef fíkniefnaneysla yrði afglæpavædd. Það sé misskilningur að hér séu fíklar sendir í fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu.

Í dag er fólk, sem er tekið með fíkniefni sem augljóslega eru til einkanota, sektað. Sektirnar eru misháar eftir hvaða fíkniefni fólk hefur undir höndum, en lágmarkssekt er 50 þúsund krónur. Fíkniefnin eru gerð upptæk og sektirnar fara á sakaskrá, hvort sem þær eru ákveðnar með dómi eða hjá lögreglu.

Tæplega þriðjungur Íslendinga er fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu, samkvæmt nýrri könnun. Með afglæpavæðingu er átt við að hætt verði að refsa fólki fyrir að hafa undir höndum fíkniefni til einkaneyslu.