„Þegar maður dregur þetta allt saman og við drógum ályktanir út frá þessum greinum. Þá kemur í ljós að kannabisnotkun virðist vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrofi og þróun geðklofasjúkdóma“

Arnar Jan Jónsson

Kannabisnotkun áhrifaþáttur fyrir geðrof

Kannabisnotkun virðist vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrof og þróun geðklofasjúkdóma. Þetta kom fram í fyrirlestri Arnars Jan Jónssonar í Háskóla Íslands 6. janúar síðastliðinn og sagt er frá á visir.is. Fyrirlesturinn var hluti af ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs skólans og er byggður á grein eftir þau Arnar, Heru Birgisdóttir, sem bæði eru kandídatar á Landspítalanum og Engilbert Sigurðsson, prófessor í læknisfræði.

Þau gerðu kerfisbundna leit, þar sem leitað var að rannsóknum og greinum sem hafa fjallað um þetta tiltekna mál.

„Þegar maður dregur þetta allt saman og við drógum ályktanir út frá þessum greinum. Þá kemur í ljós að kannabisnotkun virðist vera sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrofi og þróun geðklofasjúkdóma“, segir Arnar á visir.is. Hann segir einnig: „Áhættan virðist vera mest hjá ungu fólki, þá unglingum og ungum fullorðnum. Jafnframt kom fram í safngrein sem birt var árið 2011 að þeir sem höfðu notað kannabis og síðan greinst með geðrof, fengu sitt fyrsta geðrof 2,7 árum fyrr. Miðað við þá sem ekki höfðu fengið geðrof en ekki notað kannabis.“

Sjá heimild á visir.is

Sjá grein Arnars, Heru og Engilberts í Læknablaðinu