,,Mikill misskilningur að kannabis sé töfralyf. Vissulega eru dæmi um að efnið hafi haft jákvæð áhrif. „En það neikvæða við þetta er náttúrulega það að kannbis veldur vímu og er ávanabindandi“

„Kannabis er ekkert töfralyf“

Mikið hefur verið rætt um lækningamátt kannabisefna enda hefur efnið víða verið notað sem verkjastillandi lyf. Að sama skapi er kannabis talið hafa gefið góða raun í meðferðum sjúklinga sem þjást af krabbameini og taugahrörnunarsjúkdómum.  Björn Logi Þórarinsson, taugalæknir, sat fyrir svörum í útvarpsþætti á dögunum.

„Það hefur verið mikið rannsakað hvort að kannabisefni geti haft jákvæð áhrif á ýmsa sjúkdóma í heila, ekki bara valdið vímu. Þar á meðal er MS sjúkdómurinn. Kannbis hefur viss jákvæð áhrif þar miðað við fyrri rannsóknir. Þá sérstaklega þegar kemur að krömpum,“ segir Björn Logi.

Hann bendir á það sé mikill misskilningur að kannabis sé töfralyf. Vissulega séu dæmi um að efnið hafi haft jákvæð áhrif. „En það neikvæða við þetta er náttúrulega það að kannbis veldur vímu og er ávanabindandi.“

Þá bendir Björn Logi á að það hafi verið gerðar nokkrar rannsóknir á því hvort að kannabis hafi minnkað sársauka hjá MS sjúklingum. „Að því sem ég best veit er aðeins ein rannsókn sem hefur sýnt fram á þetta og hún er sjö ára gömul.“

„Það er hins vegar eitt sem við verðum að hafa í huga í þessari umræðu,“ segir Björn Logi. „Þegar við tölum um lækningamátt kannabiss, þá erum við ekki að tala um að reykja efnið. Það er lykilatriði.“

Hann telur umræðan vera á villigötum þegar kemur að þessu. „Við vitum að kannabisreykurinn er krabbameinsvaldandi. Og það eru all mörg ár síðan við læknar og aðrir fórum að benda fólki á að anda ekki að sér krabbameinsvaldandi reyk“, sagði Björn Logi.

Visir.is feb 2013