Ekki svart-hvíta umræðu um fíkniefnamál

„Við stöndum gríðarlega vel að vígi þegar kemur að því starfi sem hefur verið unnið hér á Íslandi. Og það er gríðarlega mikilvægt að við skoðum hvað virkar. Þegar kemur að þessum breytingum snýst þetta held ég ekki um tvo andstæða póla, heldur að skoða þetta betur í samhengi og finna lausnirnar sem eru að virka.“

Þátturinn Hringborðið á RÚV 4. maí 2015 fjallaði um fíkniefnamál.  Rætt var við Borgar Þór Einarsson, lögmann, og Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, dósent við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík sem bæði eiga sæti í starfshópi sem skipaður var til að huga að mögulegum breytingum á fíkniefnastefnu, eftir að Alþingi samþykkti þingsálykturnartillögu Birgittu Jónsdóttur og tólf annarra þingmanna.

Bryndís Björk benti á að það sé algengt í umræðu um fíkniefnamál að hlutirnir séu settir í tvær andstæðar fylkingar. „Ég held að það sé líka dálítið hættulegt. Vegna þess að staðan er ekki sú að við verðum að velja algjörlega eitt eða annað. Þetta eru flókin mál og það er hægt að finna hvað hefur virkað best innan þessara ólíku stefna sem við erum að tala um,“ segir Bryndís.

Hún benti á að með forvörnum hafi drykkja og hassneysla unglinga minnkað mikið undanfarin 15 ár. „Við stöndum gríðarlega vel að vígi þegar kemur að því starfi sem hefur verið unnið hér á Íslandi. Og það er gríðarlega mikilvægt að við skoðum hvað virkar. Þegar kemur að þessum breytingum snýst þetta held ég ekki um tvo andstæða póla, heldur að skoða þetta betur í samhengi og finna lausnirnar sem eru að virka.“

Bryndís telur að mögulega sé staðan hér það góð að ekki sé þörf á róttækum lagabreytingum. „Það er eitthvað sem við þurfum að skoða mjög gagnrýnið. Við ættum ekki að taka skref sem mögulega, samkvæmt upplýsingum okkar, mun ekki bæta árangurinn.

Sjá umræðuna á vef RUV.