Uppruni og ferðalag kannabis um heiminn
Kannabis á sér langa sögu og hefur í gegnum tíðina verið nýtt til ýmissa hluta. Talið er að hampafurðir hafi verið notaðar í a.m.k. 5000 ár og eru elstu heimildir um það frá Kína. Textar sem fundist hafa í Kína benda til þess að það hafi verið notað sem lyf í Asíu til meðferðar við fjölmörgum sjúkdómum.
Um það bil 2000 árum fyrir Krist eða fyrr hafði neysla á kannabis borist til Indlands frá Kína. Kannabisplantan var þar talin heilög og kennd við guðinn Shiva. Í Indlandi virðist neysla á kannabis til forna einkum hafa beinst að því að komast í vímu við trúarathafnir þannig að menn öðluðust fyrir tilstilli þess dýpri skilning á goðmagninu eða yrðu hluti af því.
Frá Indlandi dreifðist notkun kannabis og ræktun kannabisplantna til vestanverðrar Asíu, um ríki Araba og lönd þeirra í Norður-Afríku. Orðið hassis er raunar frá Aröbum komið og merkir upphaflega planta eða þurrkuð planta.
Á krossferðartímunum komust Evrópubúar í kynni við kannabisnotkun meðal Araba. Ekki verður þó séð að notkun kannabis hafi breiðst út í Evrópu af þessum sökum. Kannabisplantan var að vísu velþekkt í Evrópu á þessum öldum, en var fyrst og fremst ræktuð vegna trefja í stofni sem mátti nota í hamp og við gerð reipa og kaðla. Eftir landafundina miklu var farið að rækta kannabisplöntur í Vesturheimi einmitt til framleiðslu á hampi og reipum. Á 14. öld var kannabisnotkun orðin svo mikil í Arabalöndum að sums staðar var reynt að setja skorður við.
Næst komust Evrópumenn að marki í kynni við vímugefandi áhrif kannabis þegar Napóleón Frakkakeisari gerði út herleiðangur til Egyptalands í lok 18. aldar. Þrátt fyrir að notkun kannabis væri mjög útbreidd í Egyptalandi og yrði svo útbreidd meðal hermanna keisarans að þeim væri bannað að neyta kannabis breiddist kannabisneysla ekki út í Evrópu þegar þessum herleiðangri lauk og menn snéru loks heim aftur.
Á árunum upp úr 1940 var í París við lýði klúbbur rithöfunda, listamanna og fáeinna annarra manna sem á frönsku fékk nafnið ,,hassistaklúbburinn“. Aðalmenn í þessum klúbbi voru skáld og rithöfundar sem aðhylltust svokallaða rómantíska stefnu í bókenntum. Einn í þessum hópi var læknir, Moreau að nafni, sem hafði ferðast til Austurlanda og kynnst þar neyslu kannabis og gert þar m.a. lækningalegar tilraunir með hass á geðveiku fólki. Hassistafélagarnir komu saman til málsverða og neyttu með matnum eins konar konfekts sem innihélt kannabis. Af þessu komust þeir í mikla vímu sem stóð klukkustundum saman. Áðurnefndur Moreau gerði á þessu ýmsar rannsóknir og lýsti m.a. vímuáhrifunum og afleiðingum langvarandi kannabisneyslu.
Þrátt fyrir að kannabisneyslu væri þekkt víðar en í París meðal skálda og rithöfunda breiddist neyslan ekki að neinu ráðu út um álfuna. Næsta kynslóð rithöfunda og skálda, þ.e. sú sem kennd er við raunsæisstefnuna, hafði ekki sama áhuga á vímugjafa á borð við kannabis.
Notkun kannabis til vímu, eins og þekkist nú, mun eiga rætur að rekja til Mið-Ameríku á síðasta hluta 19. aldar. Á fyrstu árum 20. Aldar þekktist kannabisneysla meðal jassleikara í Louisiana í Bandaríkjunum. Er talið að kannabisnotkunin hafi borist þangað frá Mexikó. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera er talið að jassleikarar hafi átt verulegan þátt í að breiða út kannabisnotkun í Evrópu og Ameríku á þessari öld.
Á árunum milli 1950 og 1960 varð neyslu kannabis vart meðal jassleikara í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Það var þó fyrst með tilkomu Bítlanna árið 1963 og hinum miklu vinsældum þeirra að neysla kannabis fékk verulegan byr í seglin. Á þessum árum varð notkun kannabis að einhvers konar tákni uppreisnar ungs fólks, einkum háskólastúdenta, gegn ,,kerfinu“, kennsluskipulagi og velferðarríkinu. Kannabis varð eftirsóknarverður vímugjafi þeirra sem voru á móti þessu kerfi og vildu ekki taka þátt í lífsgæðakapphlaupi en taka lífinu þess í stað með ró.
Á árunum 1967 og 1968 hélt kannabisneysla innreið sína í Norðurlöndin. Fyrst var kannabis einkum notað í lokuðum hópum, en varð síðar opnari, líkt og með áfengi. Hugsanlega vegna þess að margir fyrrum mótmælendum ,,kerfisins“ gengu því aftur á hönd en héldu samt áfram að nota kannabis.
Til viðbótar þeirri notkun á kannabisefnum sem rakin er hér á undan má nefna að fræin hafa verið notuð í dýrafóður og olían til litagerðar.
Í þessu stutta yfirliti er dregin upp einföld mynd að ferðalagi kannabis um heiminn. Notkun þess hefur verið fólgin í ýmsu en nú er fyrst og fremst sótt í efnið vegna vímuáhrifanna. Notkun og misnotkun á kannabisefnum er dreifðari frá landfræðilegu sjónarmiði en nokkurs annars ávana- og vímuefnis. Ræktun þess er ekki lengur bundin við ákveðna heimshluta. Kannabisjurtin er nú ræktuð um allan heim, m.a. á Íslandi.
Byggt á:
- Vilhjálmur G. Skúlason (1972). Flóttinn frá raunveruleikanum: Áfengisvarnaráð og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
- Vilhjálmur G. Skúlason (1984). Kennslubók um ávana- og fíkniefni fyrir skóla og almenning: Hafnarfjarðarbær.
- Þorkell Jóhannesson (1984). Lyfjafræði miðtaugakerfisins. Nokkrir höfuðdrættir, helstu vímugjafar: Menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands.
- Vilhjálmur G Skúlason (2001). Uppruni lyfja og söguleg þróun. Í Árni Einarsson og Guðni R Björnsson (ritstj.), Fíkniefni og forvarnir, handbók fyrir heimili og skóla (bls. 12-21). Reykjavík: Fræðsla og forvarnir.
- Þorkell Jóhannesson (2001). Önnur efni sem ekki eru lyf en teljast til ávana- og fíkniefna. Í Árni Einarsson og Guðni R Björnsson (ritstj.), Fíkniefni og forvarnir, handbók fyrir heimili og skóla (bls. 58-64). Reykjavík: Fræðsla og forvarnir.
Til frekari upplýsingar um sögu kannabiss er vísað í eftirfarandi heimildir:
1. Umfjöllun á vefsíðu SÁÁ: http://saa.is/grein/kannabis/
2. Grein í Morgunblaðinu frá 1984 eftir dr. Þorkel Jóhannesson: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1588661